Wednesday, August 09, 2023

Bakvarðasveit: Ekki alveg það sem ég ætlaði mér

Það fer ekki allt eins og ætlað er. Sumarið búið að vera frekar gott til ferðalaga. Búinn að gæda laugaveginn tvisvar og að auki fór ég fyrst í smá könnunarleiðangur - sérstaklega til að skoða hvernig stóreldamennska í þessum skálum Laugavegsins gengi fyrir sig.

Kláraði seinni ferðina á föstudagskvöld og slapp allt saman fyrir horn með stóran hóp frá Suður-Kóreu. Fann hins vegar fyrir hálseymslum á laugardeginum og svo eftir Sluxa á laugardagskvöldi hvar ég hefði átt að vera massa rólegur en var ekki - þá er ég búinn að liggja með kvefpest. Einhvern Kóreuvírus geri ég ráð fyrir.

Það varð svo til þess að ég er ekki núna í góðum Stakahópi að nálgast Fjallkirkju í Langjökli heldur sit ég bara heima hjá mér með hor í nös. Þeir eru svo með neyðarsendinn minn með sér og ég get fylgst með hvernig miðar.

Og á meðan ég var að skrifa þetta eru þeir að mjakast nær skálanum og eiga bara nokkur hundruð metra eftir núna á flötu landi. Vona bar aða það sé hægt að sofa í þessum skála!


Ég er annars nokkuð ánægður með sjálfan mig að hafa náð að gera almennilegt takk af lofmynd frá gps.is sem ég hnitsetti sjálfur í Ozi Explorer!

Saturday, May 13, 2023

Farið á kæjak

Líklega einhvers konar áramótaheit margendurtekið, ár eftir ár

Það eru eitthvað meira en 10 ár síðan ég eignaðist kæjak eða hvað það bátskrífli skal kallast. Fyrsta reynsla af einhers konar þannig bátum var víst í Vatnaskógi fyrir mörugum áratugum en það voru samt ekki kæjakar heldur kanó bátar. Öðruvísi árar og aðrir frumbyggar Ameríku sem eiga heiðurinn af hönuninni.

Fyrsta kæjakreynslan var víst fyrir 15 árum á Breiðafirði þar sem ég prófaði eitthvað smá í góðum hópi sem ég var þá að þvælast með um fjöll og firnindi. Jú - og áhuginn eða þannig vaknaði þarna.

Svo veit ég eiginlega ekki alveg hvernig en ég keypti minn kæjak eitthvað rétt eftir hrun en fór eitthvað bara pínulítið á hann. Hugmyndin var einhvern veginn að þetta væri ekki sérstaklega dýrt áhugamál og snjallt að eiga kæjak til að geta skroppið eitthvað á - átti að vera frekar ódýrt sport. En miðað við að kæjak-kílómetrarnir mínir á þessum líklega þráttán árum erum einhverjir örfáir tugir í heildina. Svona uppreiknað þá kostar hver kílómeter hjá mér a.m.k. tíu þúsund kall - ef allir kostnaðurinn er tekinn með.. jæja ok - a.m.k. 15 þúsund held ég - enda kostar um 15 þúsund að geyma hann hjá kæjakklúbbunum í eitt ár - þó hann sigli ekki neitt!

Í seinustu siglingunni held ég þarna fyrir meira en áratug þá hvolfdi ég og ég varð eitthvað ragur - ekki búinn að fara á neitt námskeið og hafði einhverjar áhyggjur af þessu öllu saman. Þetta var annars alveg flottur kæjak. Gulur Prion Kodiak sem ég á og reyndar á Gunninn alveg eins bara rauðan.

Það má því heita verulega undarlegt að það næsta sem ég geri eftir að hafa átt ónotaðan kæjak í meira en áratug - hafi verið að kaupa bara annan kæjak! En einhvern veginn fékk ég þá flugu í kollinn að sit-on-top kaæjak væri eitthvað aðgengilegri fyrir mig en þessi sem ég var búinn að eiga ónotaðan - og eitthvað forkaupstilboð hjá GG sport endaði með því að ég sló til og borgaði staðfestingargjald í vetur fyrir jól einhvern tímann.

Ég fór svo á stúfana um miðjan apríl til að sækja bátinn. Vantaði þá eitthvað af dóti sem ég átti úr fyrra kæjak-ruglinu mínu og þurfti að komast í geymsuna í Nauthólsvík þar sem minn bátur reyndist vera í góðum félagsskap annarra kæjaka sem mér sýnist að séu margir hverjir ekki mikið notaðir heldur. Ég hef reyndar einhvern grun um að einhver hafi notað kæjakinn eitthvað fyrir mína hönd þar sem það var bleyta í honum og eitthvað ókunnugt björgunarvesti. En lensidælan mín merkt mér var í honum þannig að þetta var líklegast minn bátur - en hann var ekki merktur ég eiginlega með talasverðar áhyggjur af því að ég myndi aldrei finna hann aftur. Þarna var líka held ég báturinn hans gunna.

Svo var báturinn sóttur í GG sport og prófaður á Hafravatni seinna sama dag. Ég er annars ekki viss um hversu mikið happa það er - þar sem hinn báturinn var líka prófaður fyrst á Hafravatni líka. Fór með Gunna sem prófaði aðeins líka. Þessi bátur, sit-on-top er allur mikið þægilegri að nota en sá guli. Einfalt að komast í hann og hann er það breiður að það er ekkert einfalt að velta honum. Það þýðir líka það að hann siglir eitthvað hægar en Kodiak báturinn

Síðan er ég líklegast búinn að fara tvisvar á Hafravatn og í gær var farið á Elliðavatn. Ég yrði reyndar ekki hissa að þetta verði eitthvað trend. Fyrir mörgum áratugum var ég í hópi sem hengdi upp myndir úr félagslífinu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti - FB - sem var Facebook eða Instragram þess tíma. Fyrir færri áratugum áttaði ég mig á töfrum þess að fara á gönguskíði í Heiðmörk - sem var þá einkennilegt en er svona mainstream í dag. Sama með það að fara í gönguferðir í náttúru Íslands. Þar sem ég var að róa upp ána Bugðu, sem er neðsti hluti Hólmsár og rennur í Elliðavatn, í algjörri snilld þarna á lignu vatninu sem rennur svo mátulega rólega að það er lítið mál að róa upp ána - þá var þar kona á bakkanum að ganga með hundinn sinn. Hún sagðist koma þarna mjög oft en - jú - aldrei hefði hún séð neinn á kæjak þarna. Þetta var svo mikil snilld að ég held að þetta hljóti að verða eitthvað vinsælla í framtíðinni. En samt kannski ekki þar sem ég sé talsvert mikið auglýst af lítið notuðum kæjökum til sölu - og svo á ég náttúrlega þannig bát líka.

Ég held annars að kílómtragjaldið hjá mér á nýja bátnum sé komið niður fyrir 10 þúsund - þannig að þetta er allt að gerast!

Veit svo ekki hvort ég nái Gunna með mér í þetta núna. Talaði við hann eitthvað um þennan róður á Elliðavatni og hann varð svo fúll þegar við vorum ekki sammála um hvar áin Bugða væri, að við gátum eiginlega ekki talað saman um þetta meira - og gátum eiginlega ekki talað neitt yfir höfuð! Reyndar ekki einfalt hvar þessar ár eru þar sem upphafleg nöfn eru frá þeim tíma áður en vatnsborðið var hækkað með stíflu fyrir um 100 árum og vatnið tvöfaldaðist að stærð. En hann sagðist bara vinna við þetta og fannst snúðugt að amatörinn Einar Ragnar þættist eitthvað vita um þetta. Hef reyndar áður séð að Vatnamælingamenn búa sér til einhver nöfn út frá einhverjum þekktum stöðum í nágrenninu og vilja svo meina að nafnið sé bara þeirra staður. Þannig t.d. færðist Undanfarareiturinn í Heiðmörk til eitthvað nokkur hundruð metra hjá þeim þar sem vatnshæðamælirinn þeirra fékk það nafn.

Sunday, April 02, 2023

Ferming, 2. apríl 2023

Þá er hún Margrét búin að fermast!


Það var fermingarathöfn í Digraneskirkju í Kópavogsdalnum, myndataka í Grasagarðinum og svo fermingarveisla í Fagrahjallanum. Allt hið ágætasta.

Saturday, February 04, 2023

Játningin

... eftir Ólaf Jóhann Ólafsson

Mín játning er eiginlega bara sú að ég ákvað um áramótin að lesa a.m.k. eina almennilega bók fyrir hvern mánuð ársins 2023. Það hefði átt að vera auðvelt í janúar þar sem ég gaf sjálfum mér þá bók í jólagjöf frá síðasta jólabókaflóði sem mig langaði mest til að lesa. Það var Játningin efrir Ólaf Jóhann Ólafsson.

það gerðist einhvern veginn alveg óvart að ég fór að lesa bækur eftir Ólaf Jóhann. Fyrir margtlöngu þegar hann var að byrja að skrifa bækur þá fundust mér þær ofmetnar og óáhugaverðar þó ég hefði í raun aldrei lesið neina þeirra. það var bara fólk sem ég taldi vera með svipaðan bókmenntasmekk og ég, sem lýsti bókunum hans sem frekar óháugaverðum. Svo einvhern tímann fyrir ekkert mörgum árum var mér eitthvað sagt frá einnig bók eftir hann og þá bók las ég og ætli það hafi ekki verið Sakramentið sem kom út 2017. Síðan hef ég líklegast lesið hverja einustu bók eftir hann.

En um Játninguna þá var ég eitthvað lengi að komast inn í bókina og það var ekki fyrr en í flugvél á leið til Kaupmannahafnar á síðasta degi janúarmánaðar sem ég byrjaði eitthvað að lesa. Ég laut lestrarins í botn og lesturinn bjó til hauga af hugrenningartengslum hjá sjálfum mér. Bæði var það að bókin gerist í Austur-Evrópu og er um fólk þar á 9. áratugnun, rétt nokkrum árum áður en ég var að þvælast í Prag sumarið 1990 og svo í Berlín 1991. Aðalpersónan gerði það sem ég gerði ekki, að læra ljósmyndun þannig að hausinn á mér var eiginlega kominn einhver rúm 30 ár afturábak. Ég var svona næstum farinn að finna lyktina af framköllunarvökvanum þegar ljósmyndarinn í bókinni var að framkalla filmurnar sínar og hugurinn einnig kominn í Austur-Berlín sem ég náði í skottið á, nokkurn veginn síðustu daga þeirrar borgar.

Bókin vel skrifuð fannst mér og gerðist á mörgum tímum eins og bækur Ólafs gera yfirleitt. Hún var spennandi en í endann þá leystist spennan ekkert alveg og eiginlega þá getur maður alveg áfram haft sögupersónurnar í hausnum á sér og velt því fyrir sér hvað hafi svo orðið um þær.

Það sem svona helst truflaði mig í gegnum bókina að sumt sem sumir gerðu var einvhern veginn svo mikið á skjön við það sem eitthvað vit væri að gera að það eiginlega eyðilagði skynsemina í bókinni. En það var líklegast sú persóna bókarinnar sem - kannski sem betur fer - ég tengdi ekki endanlega við.

Thursday, January 26, 2023

Jarðarför

Erla Guðrún: 28. maí 1929 – 14. janúar 2023.

Það var hringt að morgni laugardags 14. janúar og í símanum var Kolla. Erla er dáin. Ég þá á leið í ferð sem leiðsögumaður út á Reykjanes og margt hugsað í þeirri ferð sem annars var hin ágætasta á alla lund.

Jarðarför á miðvikudegi 25. janúar frá Víðimýrarkirkju. Lítil og mjög sérstök fjölskylduathöfn í hinni afar litlu kirkju. Við fórum fimm saman á stóra jeppanum Ragnildar og Kristjáns: við systkinin, mamma og Ragnheiður sem kom frá Danmörku. Komum kvöldið áður og fórum í heimsókn til Hrafnhildar og gistum svo á hótelinu í Varmahlíð.

Þegar þau systkinin frá Syðra-Vallholti falla frá, þá er einhvern veginn eins og ekki bara hluti minnar sögu og ættar sögunnar heldur einhvern veginn á stærra samhengi líka. Erla var þvílíkt merkileg manneskja, sveitastelpa úr litlu koti í Skagafirði freistar gæfunnar í Bandaríkjunum og kemst vel áfram. Endar svo æfina aftur á heimaslóðunum.

Sérkennilegasti hluti útfararinnar fyrir mig var þegar verið var að bera kistuna út úr kirkjunni í lok athafnarinnar. Við bræður fengum það hlutverk en kirkjan er það þröng að það komast ekki nema tveir að bera á sitt hvorum endanum. Líklega varla pláss yfir handleggina á manni með hluðum kistunnar. Raunar hefur það gerst að kistan hafi verið of stór og þurft að saga af hankana eða hvernig sem því var bjargað. En við bræður vorum þarna með hana Erlu í fanginu út úr kirkjunni og með aðra útfarargesti til sitt hvorrar hliðar. Við bræður ef ég man rétt eitthvað lítillga laskaðir á sitt hvorri hliðinni en vorum svo öfugum megin við að bera kistuna áfram út í kirkjugarðinn.

Það sem ég síðan sá einhvers staðar, sem einhver skrifaði eða kannski bara sagði var að sá sem sat aftast í kirkjunni var eitthvað að hugsa um hvort það þyrfti ekki að opna dyrnar áður en við kæmum með kistuna aftur kirkjuganginn, þá, á óútskýrðan hátt fuku dyrnar upp. Hvort þar hafi sál Erlu verið að taka af skarið er eitthvað sem enginn veit.
----------------------
Færsla á Facebook

Thursday, January 19, 2023

Frost á Fróni

Reyndi að finna frosinn sjó til að mynda... Sá úr Smáraturni að Kópavogurinn virtist að mestu frosinn. Komst samt ekki þangað að mynda vegna umferðaröngþveitis. Fannst merkilegast að fjörur eru víða frosnar með botninum... einhvers konar grunnstingull sem ég þekki frekar úr ám.

Það er búið að vera frost og sjó hefur lagt en ekki þarna. Klaki hefur hins vegar myndast á botninum og hefur líklegast gerst vegna breytinga á sjávarstöðu á flóði og fjöru.

Af Facebook

Friday, January 13, 2023

Skíði á Hólmsheiði

Búinn að vera upptekinn annars vegar í vinnu og hins vegar að njóta vetrarins. Búinn að stunda Hólmsheiðarskíðasporið flesta daga. Fyrst núna í dag sem ég komst í einhverri birtu. Alltaf gaman en alveg helvíti napurt því það var vindgustur í frostinu núna.
Var annars að vígja nýjar gönguskíðabrækur en þær gömlu voru orðnar þannig að það var eiginlega bara hægt að nota þær í myrkri!

......

Af Facebook